Hagnýtar upplýsingar við andlát

Andlát


Andlát manns hefur í för með sér ýmis réttaráhrif, ekki síst fjárhagsleg. Til verður sérstakur lögaðili, dánarbú, sem tekur við flestum fjárhagslegum réttindum og skyldum hins látna þar til þau hafa verið leidd til lykta. Um þessi atriði er einkum fjallað í lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og að hluta lögum nr. 8/1962, erfðalögum. Dánarvottorð fæst á sjúkrahúsi þar sem hinn látni lést eða hjá lækni sem annast hefur hinn látna. Dánarvottorð er annars vegar tilkynning til Þjóðskrár um banamein og andlát viðkomandi og hins vegar tilkynning til sýslumanns um andlátið. Sýslumaður aðstoðar eftirlifendur með dánarbú og veitir upplýsingar um erfðamál. Sýslumaður sendir tilkynningu til innlánsstofnana og biður um að innistæður á reikningum hins látna séu frystar. Sjá www.tr.is/andlát - umsókn um dánarbætur.


Tryggingastofnun

Dánarbætur greiðast eftirlifandi maka yngri en 67 ára í 6 mánuði og 12 til 36 mánuði í viðbót ef börn innan 18 ára eru á framfæri og tekjur undir ákveðnum mörkum. Kr. 51.183 (6 mán) og kr. 38.340 (12 mán). Dánarbætur greiðast einnig fjárhaldsmanni barna yngri en 18 ára eða 18 til 20 ára ungmenni í námi.

Barnalífeyrir greiðist ef hinn látni á börn yngri en 18 ára og til 20 ára ef um er að ræða ungmenni sem er í námi. Hægt er að framlengja til 20 ára aldurs barns ef það er í námi og greiðist upphæðin þá beint til ungmennis. Barna¬lífeyrir/menntunarstyrkur er ekki tekjutengdur og er 34.362 kr. á barn/ungmenni eða 412.344 kr. á ári.

Heimilisuppbót að fjárhæð kr. 50.312 á mánuði er greidd eftirlifandi maka sem er einn um heimilisrekstur og nýtur örorku- eða endurhæfingarlífeyris og tekjutryggingar. Ef eftirlifandi maki er ellilífeyrisþegi getur hann átt rétt á heimilisuppbót að fjárhæð kr. 62.695 á mánuði.

Mæðra- og feðralaun eru möguleg fyrir einstæða foreldra með tvö eða fleiri börn.
Mæðra og feðralaun: Falli greiðslur örorkulífeyrisþega niður vegna vistar á sjúkrastofnun getur maki hans með tvö eða fleiri börn þeirra yngri en 18 ára fengið greidd mæðra- eða feðralaun. Með tveimur börnum eru greiddar 9.948 kr. og með þremur börnum og fleiri eru greiddar 25.864 kr. Mæðra/feðralaun eru skattskyld en ekki tekjutengd.

Stéttarfélög

Útfararstyrkur er greiddur hjá flestum stéttarfélögum. Flest stéttarfélög starfrækja sjúkrasjóði sem greiða m.a. bætur eða styrki til maka eða barna 18 ára og yngri við fráfall félagsmanna.

Lífeyrissjóðir

Makalífeyrir samkvæmt reglum viðkomandi sjóðs.
Barnalífeyrir með börnum yngri en 18 ára og oft til 22ja ára ef viðkomandi ungmenni er í námi.

Skattstjórinn

Eftirlifandi maki getur nýtt sér skattkort hins látna í 9 mánuði eftir andlát hans. Hægt að sækja um lækkun á tekju- og eignaskatti vegna andláts ef sýnt er fram á röskun á fjárhagi vegna andlátsins.

Borgar-og bæjarskrifstofur
Fasteignagjöld og útsvar, hugsanlega fæst afsláttur ef tekjur eru undir ákveðnu viðmiðunarmarki.

Félagsþjónusta sveitarfélaga
Hægt að sækja um fjárhagsaðstoð vegna útfararkostnaðar ef tekjur eru lágar og félagslegar aðstæður erfiðar.
Hagnýtar upplýsingar: Á vefsíðunni forsætisráðuneytisins: www.island.is undir liðnum Opinber þjónusta er að finna upplýsingar og praktískar leiðbeiningar varðandi andlát. Gott að slá inn andlát í leitarvél.

Stuðningur eftir andlát

Ný dögun, stuðningur í sorg er grasrótarfélag sem stofnað var 1987 með það að markmiði að styðja syrgjendur. Starfsemin lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Það hefur á að skipa reyndum aðilum sem unnið hafa að sálgæslu. Félagið er opið öllum. Vefsíðan er www.sorg.is Netfangið: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Ný dögun gefur út bæklingana Sorg og sorgarviðbrögð og Jólin og sorgin. Hægt er að nálgast eintök hjá This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og á heimasíðunni (smella á myndir af þeim á síðunni).

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélags Íslands
Starfsfólk Ráðgjafarþjónustunnar í samvinnu við Nýja dögun býður upp á stuðningshópa fyrir ekkjur og ekkla og í boði eru viðtöl og margsonar námskeið. Sjá nánar á dagskrá Ráðgjafarþjónustunnar sem finna má á heimasíðu Krabbameinsfélagsins www.krabb.is

Birta landssamtök foreldra/forráðamanna sem misst hafa börn/ ungmenni skyndilega er grasrótarfélag sem var stofnað 2012. Samtökin eru vettvangur foreldra/forráðamanna barna (0-18) ára og ungmenna (18-25 ára) sem látist haf skyndilega. Undir skyndilegt dauðsfall flokkast öll dauðsföll sem gera ekki boð á undan sér, hvort heldur sem orsökin eru líffræðileg, viðkomandi hafi fallið fyrir eigin hendi eða annarra, horfið eða látist af slysförum. Heimasíða: www.birtalandssamtok.is

Ljónshjarta er grasrótarfélag sem var stofnað 2013 í þeim tilgangi að styðja ekkjur og ekkla á aldrinum 20-50 ára sem misst hefur maka og börn þeirra. Félagið er með lokaðan hóp á Facebook undir heitinu Ljónshjarta og hægt er að sækja um aðgang að honum á síðu félagsins. Heimasíða: www.ljonshjarta.is

Gleym mér ei er grasrótarfélag sem var stofnað 2013. GME er styrktarfélag með þann tilgang að halda utan um styrktarsjóð sem notaður er til að styrkja ýmis málefni í tengslum við missi barns á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Félagið er með lokaðan hóp á Facebook undir heitinu Stuðningshópur – Fósturlát – Gleym mér ei.
Heimasíða: www.gleymmerei-styrktarfelag.is

Framangreind fjögur grasrótarfélög vinna nú að því að koma á fót Sorgarmiðstöð með það að markmiði að þétta þá þjónustu sem í boði er fyrir syrgjendur og auka hana.

Sumar kirkjur bjóða upp á stuðningshópa fyrir syrgjendur og má fá upplýsingar um þetta hjá prestum og djáknum, sem einnig bjóða upp á viðtöl. Aðild að Þjóðkirkjunni, eða það að vera kristinn er ekki skilyrði. Sjá heimasíður kirkna/sókna og www.kirkjan.is

Gagnasafn um sorg, dauða og erfiða lífsreynslu, ætlað almenningi og fagfólki, www.missir.is