Saga félagsins

Starfsemi

Ný dögun var formlega stofnsett 8 des 1987 og er félagið öllum opið. Starfsemin felst í stuðningi við þá sem eiga um sárt að binda vegna ástvinamissis ásamt almennri fræðslu og fyrirlestrum um sorg og sorgarviðbrögð.

Markmið

Markmið félagsins er að styðja syrgjendur og þá sem vinna að velferð þeirra. Tilgangi sínum hyggst Ný dögun ná með eftirfarandi leiðum:

  • Efna til almennra fræðslufunda og samverustunda.
  • Veita þá upplýsingaþjónustu sem auðið er á hverjum tíma.
  • Vinna að stofnun stuðningshópa.
  • Greiða fyrir samskiptum stuðningsaðila og syrgjanda.
  • Standa fyrir námskeiðahaldi og þjálfun stuðningsaðila.
  • Efla almenna fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð í fjölmiðlum og sem víðast á opinberum vettvangi.

 

Hvernig nafn félagsins varð til:

Nóttin er tími myrkursins og dauðans. En nóttin verður að víkja fyrir döguninni. Fyrst er dögunin örlítil skíma í austri, sem er átt upprisunnar og nýs lífs. Í döguninni er líka nýtt upphaf. Í dögun ýttu forfeður okkar úr vör, á ótraustum bátskeljum, til að afla lífsbjargar. Fyrir syrgjandann verður nótt sorgarinnar löng og ljós vonarinnar víðs fjarri um sinn. En við lifum samt dagana. Við höfum ekki stjórn yfir þeim. Dagarnir líða þótt við upplifum þá sem í þoku og myrkri. Svo lifum við nýja dögun: Þegar hin langa ganga í gegnum langa nótt sálarinnar tekur endi förum við að greina örlitla birtu. Það er ekki vegna þess að við séum búin að gleyma sorginni heldur hefur hún færst inn í nýja vídd þar sem dauðinn einn, nóttin ein, ræður ekki lengur. Það er þar, sem lífið og lífslöngunin getur fæðst að nýju. En við ráðum ekki hvenær þetta gerist. Allt hefur sinn tíma. Dögunin er líka tími baráttu eins og hjá forfeðrum okkar. En í sorginni, í sorgarvinnunni, ýtum við úr vör og leitum að lífsbjörginni. Á ævikvöldi horfa menn fram á nótt, en henni mun líka fylgja dögun. Dögun fylgir öllum nóttum, fyrr eða síðar. Við viljum að samtökin okkar séu vettvangur nýrrar dögunar fyrir syrgjendur. Starf Nýrrar dögunar er í stöðugri endurskoðun með það í huga hvernig komið skuli til móts við þarfir syrgjenda, á sem bestan hátt. Í því tilliti erum við þakklát fyrir allar ábendingar sem leitt gætu til fjölbreyttari úrræða fyrir þá syrgjendur sem til okkar leita. Ný dögun eru frjáls félagasamtök sem byggja tilvist sína og starfsemi á fjárframlögum og félagsgjöldum. Við hvetjum syrgjendur til þess að gerast félagsmenn. Á þann hátt verður til öflugra félag sem verður betur í stakk búið til að þróa þýðingarmikið starf með það að markmiði að vinna að velferð syrgjenda og velunnara þeirra.

 

Saga Nýrrar dögunar:
Fyrstu samtök syrgjenda á Íslandi voru stofnuð 8. desember 1987. Þau fengu kennitölu og heitið Ný dögun, samtök um sorg og sorgarviðbrögð 29. maí 1991.
Þær Jóna Dóra Karlsdóttir og Olga Snorradóttir tóku þátt í undirbúningi að stofnun samtakanna. Í viðtali við þær í „Ný dögun“ 1. tbl. 1. árg. 1991 segja þær frá tilurð samtakanna:
Olga: Ég hafði heyrt um reynslu Jónu Dóru. Það var áður en ég missti manninn minn En eftir að hann dó, þá fór ég að hugsa um þann stuðning, sem hægt væri að fá. Þá var það, að ég las viðtal við Guðmund Árna, mann Jónu Dóru, þar sem hann talaði um þörfina fyrir stuðningshóp. Langaði mig þá að hafa samband við Jónu Dóru, en þorði fyrst ekki að hringja. Ég fékk vinkonu mína til að vera milligöngumann og við hittumst síðan heima í nóvember 1986. Þá töluðum við lengi saman.
Jóna Dóra: Það kom okkur óvart, hversu margt við áttum sameiginlegt, þrátt fyrir ólkíkan missi, ég hafði misst börn, en Olga manninn sinn. Ég fann það, eftir að ég missti strákana, að ég gat ekki leitað neitt og þarna var komin manneskja, sem ég átti margt sameiginlegt með. Í framhaldi af samtali okkar ákváðum við að reyna að mynda stærri hóp, sem varð þetta 10-11 manns. Þessi hópur má segja að hafi hist vikulega í u.þ.b. ár.
Olga: Í febrúar 1987 héldum við námstefnu í Templarahöllinni í Reykjavík, sem um 250 manns sóttu […]. Síðan héldum við námstefnu á Akureyri í maí sama ár, sem 40 manns sóttu […]. Sumarið og haustið 1987 var í gangi undirbúningur að stofnun samtaka syrgjenda, sem svo leiddi til stofnunar Samtaka um sorg og sorgarviðbrögð þann 8. Desember 1987. Í framhaldi af stofnun samtakanna fórum við að halda mánaðarlega fræðslufundi í Hallgrímskirkju.
Jóna Dóra: Við settum upp símavakt á Borgarspítalanum í hverri viku með fagmanni og syrgjanda við fórun líka mikið í hús til syrgjenda á þessum tíma. Við fórum oft með blóm… Colin Murray Parkes, geðlæknir og forseti CRUSE, sorgarsamtaknna í Bretlandi kom í heimsókn í ágúst 1988. Það var ýmislegt að gerast en okkur vantaði fastan samastað.
Viðtalið er lengra og má lesa hér: Ný dögun 1. tölublað (01.11.1991) á www.timarit.is, bls. 49-50.
Í þessu fyrsta tölublaði tímaritsins Ný dögun eru eftirfarandi erindi sem flutt voru á námstefnu um málefni syrgjenda í apríl 1991:
Jóhannes Björnsson læknir: Dánarorsakir.
Gylfi Jónsson lögreglufulltrúi og Birgir Ásgeirsson prestur: Tilkynning andláts.
Sigfinnur Þorleifsson prestur: Stuðningur við fólk, sem missir við skyndidauða.
Valgerður Sigurðardóttir læknir: Stuðningur við deyjandi fólk og aðstandendur þeirra.
Svanlaug Skúladóttir hjúkrunarstjóri Slysa- og sjúkravakt Borgarspítalans og Rudolf Adolfsson geðhjúkrunarfræðingur: Áfallahjálp og stuðningur við hjálparaðila.
Hlöðvar Kjartansson héraðsdómslögmaður: Lagaleg staða ekkna og ekkla.
Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur Ríkisspítala: Sorg barna.
Ólöf Helga Þór námsráðgjafi: Vinur í sorgarhúsi.
Á milli fyrirlestranna komu syrgjendur með innlegg, sem byggð voru á eigin reynslu. Fjöldi þátttakenda var 118 manns. Námsstefnustjóri var sr. Bernharður Guðmundsson.
Ábyrgðarmaður og ritstjóri tímaritsins var sr. Bragi Skúlason, formaður fræðslunenfdar Nýrrar döguar samtaka um sorg og sorgarviðbrögð.
Á tíu ára afmæli Nýrrar dögunar árið 1997 kom tímarit samtakanna út. Það má lesa í held sinni á www.timarit.is 1. tölublað (01.11.1997) Þar er fremst Hugleiðing eftir Sigfinn Þorleifsson sjúkrahúsprest sem jafnframt var fyrsti formaður Nýrrar dögunar. Þar segir hann m.a.:
„Það er dæmigert fyrir eðli og inntak þessa starfs, þar sem syrgjendur vinna að úrlausn eigin sorgar, að það voru þeir sem sjálfir höfðu reynt, sem blésu til upphafsins með elju sinni og áhuga. Styrkur samtaknna er ótvírætt mestur vegna þess að þau byggja á kröftum sjálfshjálparinnar. Samtal og samvera þeirra, sem eru reysunni ríkari felur í sér mikla vaxtarmöguleika. Á þeim vettvangi geta góðir hlutri gerst og þar er mikilvægt að þekkingin dýpki skilninginn svo syrgjandinn fái nauðsynlega viðurkenningu á erfiðri líðan. Fræðin eru góð og gild, en ein og sér duga þau harla skammt. Það er mikilvægt að flétta saman eigin reynslu og fræðilega þekkingu á eðli sorgarinnar.“
Á tuttugu ára afmæli Nýrrar dögunar, 8. des. 2007 segir sr. Elínborg Gísladóttir þáverandi formaður í Morgunblaðinu 334. tölublaði: „Við erum alltaf með átta fræðslufundi á ári, fjóra að hausti og fjóra að vori. Fyrir jól buðum við upp á fyrirlestur sem hét jólin og sorgin, fyrir þá sem eru að ganga í gegnum sín fyrstu jól eftir ástvinamissi. Í febrúar höfum við alltaf verið með fræðslu um sjálfsvíg og bjóðum þá fólki að vera í hópavinnu í sex til átta skipti.“ Hjá Nýrri dögun er til ákvðið hugtak sem heitir „sorgarvinna“. Að missa ástvin er fall og því fylgir sorg. Maður þarf að leggja á sig vinnu til að komast í gegnum hana og fyrir suma er gott að gera slíkt í hópum. Þar liggur eitt helsta svið Nýrrar dögunar; að koma á stofn slíkum hópum.
Segja má að starfsemi Nýrrar dögunar hafi verið með nokkuð föstu sniði í um tuttugu ár, eða frá 1998 til 2018, eða eins og sr. Halldór Reynisson lýsti á eftirfarandi hátt, en hann hefur átt sæti í stjórn Nýrrar dögunar frá stofnun félagsins:
Fræðslufundir eru að jafnaði einu sinni í mánui frá því í september og fram í apríl-maí. Á þessum fundum er fjallað almennt um sorg og sorgarviðbrögð, barnsmissi, foreldramissi, andvana fæðingar og fósturlát, sjálfsvíg, sorg unglinga og svo framvegis. Fyrirlesarar eru sérfræðingar, s.s. sálfræðingar, læknar, hjúkrunarfræðingar og prestar, en einnig tala syrgjendur sjálfir.
Opin hús voru jafnan mánaðarlega. Fyrst einungis á veturna en seinni árin líka yfir sumarmánuðina, því „sorgin fer ekki í sumarfrí“. Á opnu húsin leituðu syrgjendur eftir stuðningi og ráðgjöf. Þá var Ný dögun með símatíma á vissum dögum og stóð fyrir stuðningshópum.
Viðtalið við Halldór má lesa hér: Bjarmi 2. tölublað (01.05.1998) á www.timarit.is, bls. 8.
Árið þrjátíu ára afmæli samtakanna 2017, blés Ný dögun til vinnufundar fagaðila um spurninguna: „Getum við stutt betur við syrgjendur á Íslandi?“ Á fundinum var unnið á sex borðum og voru þátttakendur 26, eftirtaldir:
Frá Landspítala: Ingileif Malmberg, Kristjana G. Guðbergsdóttir, Guðríður K. Þórðardóttir, Sigrún Anna Jónsdóttir, Rósa Kristjánsdóttir og Svandís Íris Halldórsdóttir.
Frá Nýrri dögun: K. Hulda Guðmundsdóttir, Birna Dröfn Jónasdóttir, Halldór Reynisson, Steinunn Sigurþórsdóttir, Guðrún J. Guðlaugsdóttir, Birna Róbertsdóttir og Brynhildur Hall.
Frá Ljónshjarta: Ína Ólöf Sigurðardóttir og Karen Björk Guðjónsdóttir
Frá Gleym mer ei: Anna Lísa Björnsdóttir
Frá Birtu, landssamtökum: Sveinbjörn Bjarnason
Aðrir: Sigrún Óskarsdóttir frá Útfararstofu Kirkjugarðanna, Auður Inga Einarsdóttir prestur á Grund, Gunnjóna Una Guðm. frá Krabbameinsfélaginu, Benedikt Jóhannsson frá Fjölskylduþjónustu Þjóðkirkjunnar, Einar Guðberg Jónsson frá lögreglu höfuðborgarsvæðis, Karl Matthíasson prestur, Rún Halldórsdóttir læknir Heilbrigðisstofnun Vesturlands, og þær Dóra Sólrún Kristinsdóttir og Þórdís Tómasdóttir, án titils.
Fyrir fundinn flutti erindi, Ásta B. Pétursdóttir doktorsnemi sem rannsakar hvort meðferðarsamræður með þeim sem annast nákominn aðila með lífsógnandi sjúkdóm skili árangri í sorgarúrvinnslu eftir andlát.
Niðurstaða vinnufundarins var ákall um sorgarmiðstöð - miðlæga þjónustu við syrgjendur.